25.2.2007 | 11:29
Árgangur 61 - 30 ár í vor
Kæru félagar
Þessi síða er stofnuð í tilefni þess að í vor eru 30 ár síðan við lukum, fyrst allra árganga, grunnskólaprófi, frá Réttarholtsskólanum okkar.
Þar með var þremur ótrúlega skemmtilegum og viðburðarríkum árum lokið. Við gengum þar inn haustið 1974 barnung og blaut á bak við eyrun, en þó nokkuð góð með okkur, enda barnaskólinn að baki og framundan skemmtileg unglingsárin. Vorið 1977 gengum við svo út í lífið og svei mér þá ef okkur fannst við ekki vera orðin rígfullorðin. Alla vega voru okkur voru allir vegir færir - Var það ekki?
Árgangurinn var æði fjölmennur enda var okkur skipt upp í átta bekki. Auðvitað kynntumst við ekki öll jafnvel en án efa eigum við öll enn trygga vini og kunningja frá þessum árum. Kannski er farið að fyrnast yfir vinskapinn við einhverja aðra og því er kjörið tækifæri núna að treysta gömul bönd og rifja upp gamlar stundir.
Þessi síða er fyrsta vers í endurnýjun gamalla kynna og vonandi verðið þið sem flest virk í að setja hér inn efni og skiptast á minningum og hverju því sem ykkur finnst eiga erindi hingað inn.
Þann 5. maí er síðan fyrirhugað að hittast og eiga saman notalega og skemmtilega stund. Sjálfskipuð nefnd hefur tekið að sér að halda utan um þá uppákomu og þið fáið nánari upplýsingar um það allt saman í sniglapósti innan tíðar.
Læt þetta nægja í bili en vænti þess að sjá hér mikla, gamalkunna virkni, ykkar allra.
Mikið rosalega hlakka ég til!
Ingibjörg Margrét - sú sem gegndi nafninu Imba hér forðum daga
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.