Færsluflokkur: Bloggar

Minningarathöfn.

Talaði við gamlan skólabróður í gær, herra Viggó Jörgens.

Ekki veit ég á hvaða vítamíni sá gaur er, en ætla mér að komast að því. Þessi maður, hefur eitthvað súperman minni og það er ekki eðlilegt!

Símtalið okkar var eitthvað á þessa leið:

Viggó: Carola, blessuð...hvað segirðu?

Ég: allt fínt bara...(og var að reyna að muna hvernig Viggó leit út)

Viggó: rosalega hlakka ég til að hitta alla aftur, mannstu þegar við vorum hjá Óla Skúla og hann var alltaf að skamma þig?

Ég: eh ????

Viggó: já, manstu ekki...það var nánast í hverjum tíma sem hann gólaði á þig : Carola, viltu taka út úr þér tyggjóið!!!

Ég: ??!!!!!

Viggó: já, þú varst með tyggjó í hverjum einasta tíma..... og það var ekki fyrr en í seinasta tímanum sem hann var góður við þig og sagði: fallega Carola.....

Ég: fallega Carola ????

Viggó: já, manstu ekki ?

Ég: nei!!!

Viggó: Það var af því að þið ætluðuð að gefa blómin!

Ég: blómin????!!!!!....hvaða blóm???

Viggó: (greinilega orðin pirraður)  .....Carola, blómin á altarið !

Ég:Á altarið???

Viggó: Já fyrir ferminguna!

Ég:  ó....já...eitthvað rámar mig í það (var að ljúga, man ekkert eftir þessu, man varla eftir að hafa fermst)

Viggó: svo man ég svo eftir því, þegar þú stóðst upp og sagðir yfir allt....... mér er andsk...sama hvort þu fermir mig eða ekki, ég fermi mig bara sjálf!

Ég: Guð minn góður!

Viggó: já og manstu þegar hann var að segja okkur frá spítunni?...þessari sem var of litil fyrir gluggann?

Ég: (vandræðaleg) hahahaha....já...(aftur að ljúga)

Viggó: svo gleymi ég aldrei á meðan ég lifi, þegar við kveiktum í sokkunum og hentum þeim inn um gluggann,...(svo hló hann tryllingslega)  Bwahahahah...... djö... var það fyndið.

Ég: Viggó, ertu ekki að ljúga að mér? við getum ekki hafa gert svona hluti , þetta er ekkert líkt mér!

Viggó: bíddu.. er þetta ekki Carola sem var í 3-U ?

Ég: jú !

Viggó: já!

-Þögn-

Ég: jæja, hvað er annars að frétta ?

Viggó: bara allt fínt.

Ég: heyrðu, hlakka til að sjá þig 5 mai.

Viggó: já, sömuleiðis !

 Ég: bless.

Viggó: bless.

 

Ég sting upp á því að Viggó verði með minningarathöfn þann 5 mai, fyrir þá sem ekkert muna , í leðursófa horninu milli kl 22 og 23 .

Carola.


Dagskráin 5. maí

Jæja kæru félagar,

þá fer heldur betur að styttast í daginn okkar góða - bara tvær vikur til stefnu!

 

Dagskráin er nú óðum að taka á sig endanlega mynd og allt bendir til þess að við munum eiga saman bæði notalegt og skemmtilegt kvöld eftir að hafa heimsótt gömlu menntastofnunina fyrr um daginn.

 

Svona lítur dagskráin fyrir 5. maí út, í grófum dráttum:

 

Kl. 15:00 heimsókn í Réttó

Þar mun lærifaðir okkar Þorvaldur Jónasson taka á móti okkur, leiða okkur um skólann og leyfa okkur að rifja upp gamlar stundir.

 

Kl. 19:00 mæting í Rúgbrauðsgerðina að Borgartúni 6

Borðhald hefst klukkan 20:00

 

Matseðill: 

Forréttur:

Humarpaté, laxamosaik og kókosrækjur á brakandi salati með sólþurrkuðum tómötum, fetaosti og fylltum eggjum. 

Aðalréttir:

Innbökuð nautalund Wellington.

Hvítlauks og rósamarínerað lambalæri.

Appelsínugljáðar kalkúnabringur. 

Meðlæti:

Ferskt grænmeti, pönnusteiktar kartöflur, eplasalat, rauðvínssósa og kryddjurta-eggjasósa.

 

 -o-o-o-o-o-o-

 

Veilsustjórn verður í höndum okkar góðkunna fjölmiðlamanns og skólabróður,

Heimis Karlssonar

 

Ræðumaður kvöldsins verður okkar stórskemmtilega skólasystir og leikkona,

Erla Rut Harðardóttir

 

Hópurinn hefur á að skipa mörgum færum tónlistarmönnum og þeir Karl Marinósson, Kristján Matthíasson, Jóhann Ásmundsson, Ómar Einarsson, Egill Jóhannsson og Stefán Emilsson ætla að stilla saman strengi sína og gleðja okkur með lifandi tónlist.

 

Auk þess hefur Karl okkar Marinósson safnað saman tónlist frá Réttóárunum og hver veit nema gamlir danstaktar losni úr læðingi.

 

Fyrir þetta allt greiðum við aðeins 5000 kr pr. mann

Þar sem mikilvægt er fyrir okkur að vita nákvæmlega um fjölda í matinn förum við þess á leit við ykkur að greiða þátttöku í síðasta lagi þriðjudaginn 1. maí inn á reikning: 1101-26-31134, kt. 1003614189 og setja nafnið ykkar sem skýringu á greiðslunni.

 

Hlökkum til að sjá ykkur,

undirbúningsnefndin.


Áríðandi

Við í undirbúningshópnum höfum fengið fregnir af því að einhverjir hafi ekki fengið send bréf frá okkur um að til stæði að hittast 5. maí. (Vitum um tvö slík dæmi og það er tveimur dæmum of mikið). Við skiljum reyndar ekkert í hvernig á því getur staðið þar sem við lögðum okkur fram um að hafa upp á hverjum einasta manni.

Til að tryggja það að enginn verði útundan biðjum við ykkur endilega um að hafa samband við þá sem eru í kringum ykkur og athuga hvort þeir hafi ekki fengið fregnir af þessum skemmtilega viðburði framundan.


Fleiri myndir

Jæja, Þorvaldur tók aldeilis vel á móti mér í gamla skólanum í gær og ég fékk að fletta í gegnum safn bekkjamynda og pikka út það sem þar var að finna og okkur vantaði.

Enn vantar samt myndir af tveimur þriðju bekkjum - 3.U og 3.Þ - þessar myndir voru ekki til í möppu Réttarholtsskóla og til að fá þær þar þarf að taka mynd af þeim þar sem þær hanga upp á vegg - ekki er hægt að fá þau eintök lánuð þar sem margar myndir eru saman í einum ramma sem er skrúfaður fastur upp á vegg.

Svo nú stendur upp á ykkur kæru félagar sem voruð í þessum bekkjum að leita í ykkar hirslum og vita hvort þið finnið ekki gömlu góðu bekkjarmyndina. 

Hún Ásta Lára liggur sannarlega ekki á liði sínu og í albúmið "Ýmsar gamlar myndir" hafa bæst við myndir frá henni auk þess sem hún dró fram úr pússi sínu gamlar bekkjamyndir úr Breiðagerðisskóla sem eru komnar undir "Bekkjamyndir yngri bekkja".

 En fylgist endilega áfram með því um helgina er ætlunin að setja hér inn dagskrá og matseðil fyrir 5. maí.

Kveðja Ingibjörg 


Sæl öll og gleðilegt sumar.

Ég vek athygli ykkar á nýju albúmi sem inniheldur ýmsar myndir frá árunum í Réttó.

Ef eitthvert ykkar lumar á slíkum myndum þá er um að gera að senda mér póst á ingmar@hive.is. Ég get þá gefið ykkur upp aðganginn að síðunni svo þið getið sett myndirnar inn.

Ég hef svo mælt mér mót við hann Þorvald okkar gamla kennara á morgun til að fá hjá  honum þær bekkjamyndir sem upp á vantar.

Nú svo er um að gera að fylgjast vel með, því um helgina koma inn nánari upplýsingar um fagnaðinn okkar góða þann 5. maí.

Með sumarkveðju

Ingibjörg

PS. Carola, ég get engan veginn getið upp á hver þessi fjallmyndarlegi töffari var - enda voru þeir allir þannig í mínum huga Wink

 


Ég setti þessa sögu inn á bloggið mitt fyrir 3 árum, læt hana flakka hér.


Glæsileg verðlaun í boði fyrir þann sem getur upp á því, hver hann er þessi töffari í sögunni !

 

Reunion.

 

Mig dreymdi í nótt að ég væri á skóla-reunioni. Ég hefði sko ekkert á móti því að vera að fara á eitt núna.....en málið er bara að þetta er haldið á 5 ára fresti og það eru bara 2 ár síðan seinasta var.

Ég var í ofboðslega skemmtilegum gagnfræðiskóla , þeim allra besta... Réttarholtsskóla.
það eru auðvitað ár og dagar síðan,... en við höfum hist á 5 ára fresti frá því að við vorum 10 ára gagnfræðingar.
Þetta var alveg rosalega stór árgangur 7 eða 8 bekkir og mikið af skemmtilegu fólki eins og t.d við vinkonurnar í saumaklúbbnum mínum.

Á seinasta reunioni sem var, "by the way" meiri háttar skemmtilegt , var fólk sammála um að við hittumst ekki nógu oft og Lalli Lall (sem var ömurlegur veislustjóri)  lagði til að við hittumst á 3 ára fresti, því að upp frá þessu færum við að tína tölunni og restin komin á elliheimili með gyllinæð!!!
Mér fannst þetta reyndar ógeðsl…. fyndið og hló eins og skepna, en það var fólk þarna inn á milli sem annað hvort sár móðgaðist eða hreinlega fór að gráta.
Ég var spennt í margar vikur áður en þetta kvöld rann upp. Ég var búin að plana með margra vikna fyrirvara í hverju ég ætlaði
Mér fannst ég geðveik pæja, ekki bara var ég í góðum “fílingi” yfir fötunum mínum og make-up-inu, nei….til að setja punktinn yfir i-ið fékk ég lánaða æðislega flotta skó hjá (þá 19 ára) dóttur minni.
Þetta voru svona hálfgerðir kúrekaskór með óvenju langri og mjórri tá.

Ég uppgötvaði fyrst hvaða mistök ég hafði gert með skóna,  þegar við mættum í salinn.

Við vorum uppi á annari hæð og þurftum að ganga upp að minnsta kosti 30 tröppur.
Ég kom fætinum ekki á tröppurnar fyrir óvenju löngu og mjóu pæju-tá-skónum.

Sko… ég kom fremsta hlutanum af skónum á tröppuna, en vegaði svo bara salt.
Guð minn góður...... hvernig í skrattanum átti ég að redda þessu án þess að fara úr skónum ?
Sem betur fer var ég aðeins búin að fá mér í “aðra tánna” þannig að ég var svona létt kærulaus. Ég bara snéri mér á hlið og plammaði upp tröppurnar eins og ég væri á skíðum á leið upp skíðabrekku !

Það voru fáir vitni að þessu og ég var ennþá pæja.

Eftir því sem á kvöldið leið og ég buin að fá mér nokkra pina colada,  varð erfiðara og erfiðara fyrir mig að hafa stjórn á þessum skóm. Ég var alveg buin að gefast upp á því að ganga eðlilega, nú var ég farin að draga fæturnar...... eða réttara sagt, skauta eftir gólfinu.
En hvað um það, ég var í geggjuðum og rándýrum há-tísku skóm og ég var pæja.


Ég reyndi svo bara að sitja sem mest og var að tala við gamlar skólasystur þegar einn sá flottasti úr árganginum kom að borðinu og bauð mér í dans.
Slefið úr kellunum í kringum mig náði örugglega heilum 4 lítrum og þær lyktuðu af öfund.
Og hverju svara ég pæjan ?…..”æ, ég held ekki, þetta er líka svo ömurlegt lag” !

Ég var sko alveg til í að dansa við hann, ég bara treysti mér ekki í þessum óvenju löngu skóm.
Hann var ekki fyrr farinn en allar slefandi kellurnar spurðu mig af hverju ég vildi ekki dansa við hann, ég svaraði með svona merkissvip, “hva… af hverju dansið þið ekki við hann?”
Ég var svo deprimeruð út af þessu, að ég pantaði mér 3 pia colada á einu bretti.

Ég var geggjuð pæja þegar ég stóð upp stuttu seinna og skautaði af stað í átt að gæjanum sem ég hafði neitað um dansinn 3 glösum áður.
Jæja kallinn, sagði ég og blikkaði til hans..... hvernig væri að dansa núna?

Við vorum rétt komin út á gólf þegar ég sá að þetta gengi ekki hjá mér .
Hann tók eitthvað svaka freestyle dæmi, en ég…. já ég var ömurleg!
Allt í einu fannst mér þetta eitthvað skrítið. Hérna var ég, 40 ára gömul kona, drukkin af of mörgum pina colada, í stórhættulegum skóm af 19 ára dóttur minni, sem litu út fyrir að vera nr.48.

Ég ætlaði nú samt ekki að gefast upp og ákvað að redda mér flott út úr þessu, “heyrðu” sagði ég við gæjann, “ég ætla að biðja um annað lag, þetta er glatað, bíddu!”
Ég skautaði í átt að sviðinu og án þess að hugsa, ætla ég að stíga upp á 40 cm hátt sviðið, búmm!!!!  táin flækist fyrir mér og ég dett kylliflöt með höfuðið í klofið á discotekaranum sem sat þarna á sviðinu.
Ég brölti á fætur og bölvaði skónum og reyndi að afsaka mig við diskotekarann sem brosti sóðalega til min. Ég snéri mér við til að sjá hvort gæjinn hefði nokkuð séð þetta fall mitt.
Hann var horfinn en Lalli Lall (ömurlegi veislustjórinn) og Laufey stóðu þarna og hlógu að mér og klöppuðu. Örlítið vandræðaleg yfir þessu óhappi mínu, hneigði ég mig, skautaði að borðinu mínu og fékk mér pina colada.

Ég hef ekki hugmynd um það hvort hann sá mig detta, en ég hugsa oft um það.
Spái líka oft í það hvort ég ætti að hringja í hann og spyrja hvort hann hafi séð mig detta ,reyna þá kannski að útskýra þetta með skóna fyrir honum.

Nei.... ég læt þetta ekki trufla mig neitt, bíð eftir næsta Reunioni...verð örugglega aftur orðin pæja þá.

Carola.


Ég hlakka svo til að hitta ykkur öll aftur !!!

Ég get ekki annað en hlegið þegar ég skoða gamlar myndir af okkur á fyrri reunionum (segir maður þetta svona?)

Mér finnst við eitthvað svo gömul og hallærisleg, en ég trúi því að þarna spili tíska fyrri ára STÓRA rullu.  Gæti líka bara verið afneitun mín yfir því að vera orðin 46 ára gömul, allavega sé ég aldrei eldri manneskju en tvítuga, þegar ég lít í spegil........sem er auðvitað þvílík geggjun, þar sem ég á börn eldri en það!!!!

Eitt er víst, og ég þori að veðja aleigu minni (þ.m.t maka og börnum), að það finnst ekki annað reunion, þar sem fólk skemmtir sér jafn vel og við gerum.

Við, þessi hópur sem vorum saman í Réttarholtsskóla fyrir....hva, hundrað árum,  erum ótrúlega góður og skemmtilegur hópur.

Ég hitti gamlan kennara okkar um daginn sem tók undir þetta og sagði að við, þessi 1961 árgangur værum alveg á sér parti. Ég var svo glöð að ég faðmaði hann að mér og kyssti og fékk þetta svo skriflegt hjá honum til að sýna ykkur 5 maí.

En til þess að geta tekið þátt í þessari taumlausu gleði, þarf að skrá sig og hvernig gerir maður það ???

1) þú færð þér sæti við tölvuna þína (eða stelst í vinnunni)

2) Skrifar póst....t.d. Hæ, ég heiti Æli og var í 3-Q

3) Sendir póstinn á eitt af eftirtöldum netföngum.......carolaida@internet.is   guddy@sial.is     ingmar@hive.is     birnabir@simnet.is   rthg@visir.is 

4) Bíður svo sallaróleg/ur eftir pósti frá okkur til baka, með uppl. um dagskrá dagsins/kvöldsins,...matseðli og fl.

5) Hringir síðan í alla kunningja þína  úr þessum árgangi (bara þá sem voru í Réttó) og rekur á eftir þeim að senda póst til okkar.

Þá ætti þetta að vera komið.

Svo segi ég enn og aftur: Ég hlakka svo til að hitta ykkur öll aftur!!!

 

Kveðja.

Carola 3- U 

 


Nýjar myndir

Það er ekki að spyrja að því að auðvitað brugðust menn skjótt við og nú hafa bæst við myndir af 3.V og 3.Z sem þeir Magnús Bergsson og Stefán Emilsson sendu inn. 

Jafnframt er komið albúm fyrir eldri bekkjamyndir því þeir Siggi Sig og Magnús drógu fram myndir af 2. bekk B og E. 

Reyndar fylgdi myndinni frá Sigga að þetta væri 1.B en klæðnaður Guðmundar kennara á myndunum sýnist mér benda til að þær séu teknar sama daginn, nema þetta séu sérstök fyrirsætuföt Guðmundar Wink

Nú og þar sem E bekkurinn hefur áritað myndina sína skilmerkilega og merkt hana 2.E þá dreg ég þá ályktun að þetta sé frekar í öðrum bekk en þeim fyrsta - enda kominn einhver þroskasvipur og töffarabragur á mannskapinn sem örugglega var ekki að finna í fyrsta bekk. Eða hvað sýnist ykkur?

Vona að fleiri myndir berist frá framtakssömum einstaklingum í hópnum! 

Páskakveðja,

Ingibjörg 


Nöfn við myndir

Nú eru komin nöfn við bekkjarmyndina af 3-T. Þau eru reyndar ekki í þeirri röð sem mannskapnum er stillt upp í, heldur í stafrófsröð svo þið getið dundað ykkur við að tangja saman nöfn og andlit. Vonandi berast svo fleiri bekkjamyndir áður en langt um líður.

Gleðilega páska! 


Bekkjamyndir

Jæja kæru félagar, nú er bara mánuður til stefnu!

Það er ánægjulegt að margir hafa þegar sent okkur línu í tölvupóstinum, til að hægt verði að koma frekari upplýsingum til þeirra í gegnum tölvuna. Þeir sem ekki hafa enn látið verða af því að senda okkur netfangið sitt ættu endilega að drífa í því - enda felst ekki nokkur skuldbinding í þeim gjörningi.

Nú svo er gaman að sjá að það eru fjölmargir farnir að líta hér inn, ef marka má tölur um heimsóknir dag hvern, og ennþá meira gaman að sjá orsendingarnar í gestabókinni. Því meiri virkni hér því betra - og það veltur auðvitað á okkur sjálfum að halda henni uppi - ekki satt?

Ég hef nú búið til nýtt albúm sem ber heitið Bekkjamyndir en það er satt að segja ansi rýrt ennþá því þar er aðeins eina mynd að finna.  Það var hann Siggi Sig sem sendi mér myndina en hún er af 3 - T (þeim stórglæsilega og bráðefnilega hópi). Auðvitað er markmiðið að birta hér myndir af öllum bekkjum og til að auðvelda þá vinnu væri sannarlega vel þegið ef þið gæfuð ykkur tíma  í páskafríinu til að grafa upp gömlu bekkjamyndirnar, skönnuðuð þær inn og senduð mér á netfangið ingmar@hive.is.

Annars bara gleðilega páska!

Imba.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband